Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 129/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 129/2022

Fimmtudaginn 7. júlí 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. mars 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur tekjutengdra atvinnuleysisbóta til hennar frá 1. febrúar 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 31. maí 2021 og var umsóknin samþykkt þann 2. júlí 2021. Kærandi fékk greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur frá september 2021 til 31. janúar 2022 á grundvelli XVIII. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun 1. mars 2022 og kvaðst ósátt við að fá ekki lengur tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Kæranda var þá tjáð að framangreint bráðabirgðaákvæði hefði runnið út 1. febrúar 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. mars 2022. Með bréfi, dags. 2. mars 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 13. apríl 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 28. apríl 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún geri kröfu um leiðréttingu á ákvörðun Vinnumálastofnunar um að neita að greiða henni tekjutengdar atvinnuleysisbætur í sex mánuði sem hún telji sig eiga rétt á. Í gildi hafi verið sex mánaða tímabundin tekjutenging þegar kærandi hafi byrjað að fá greiddar atvinnuleysisbætur og hún eigi eftir að fá tvo mánuði af sex mánaða tekjutengingu greidda. Stofnunin neiti að greiða og segi að þann 1. febrúar 2022 hafi tímabundna tekjutengingin í sex mánuði fallið niður. Málið sé hins vegar að þegar tekjutengingartímabilið hafi hafist hjá kæranda hafi þetta verið í gildi og því telji hún að hún eigi að fá sex mánuði greidda. Í aðgerðum stjórnvalda vegna Covid-19 hafi verið sagt þegar tekjutengingin hafi verið sett á að hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta væri 456.404 kr. á mánuði. Þá hafi verið sagt að atvinnuleitandi sem uppfylli skilyrði tekjutengingar ætti alla jafnan rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í þrjá mánuði í upphafi bótatímabils en sá réttur hafi tímabundið verið lengdur í sex mánuði. Þetta sýni að þegar tekjutengingartímabilið hafi hafist hjá kæranda hafi þessir sex mánuðir verið í gildi og því geri hún kröfu um að ákvörðunin verði leiðrétt. Það geti ekki verið að breytingin sem hafi tekið gildi þann 1. febrúar 2022 eigi að virka afturvirkt á þá sem hafi hafið tekjutengingu fyrir þann tíma, það er þegar sex mánaða tekjutenging hafi verið í gildi. Kærandi hafi ekki fengið neitt skriflegt frá Vinnumálastofnun heldur hafi henni verið tjáð þetta símleiðis af starfsmanni Greiðslustofu stofnunarinnar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 31. maí 2021. Þar sem kærandi hafi átt inni eftirstöðvar af uppsagnarfresti og ótekið orlof hjá fyrrverandi vinnuveitanda hafi kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 11. september 2021. Á þeim tíma hafi verið í gildi bráðabirgðaákvæði með lögum um atvinnuleysistryggingar sem hafi heimilað greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta til atvinnuleitenda í allt að sex mánuði í stað þriggja. Ákvæðinu hafi verið gefinn gildistími til og með 31. janúar 2022. Kærandi hafi fengið greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins en eftir að ákvæðið hafi fallið úr gildi hafi kærandi fengið greiddar grunnatvinnuleysisbætur. Kærandi hafi þá fengið greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í rúmlega fjóra mánuði.

Þann 1. mars 2022 hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun og sagst vera ósátt við að fá ekki lengur tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Afstaða kæranda hafi verið sú að þar sem hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur þegar bráðabirgðaákvæði hafi verið í gildi teldi hún sig eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í sex mánuði. Kæranda hafi verið bent á rétt hennar til að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta til kæranda og greiða henni grunnatvinnuleysisbætur frá 1. febrúar 2022.

Fjallað sé um fjárhæð atvinnuleysisbóta í VII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Í 32. gr. laganna segi að atvinnuleitandi öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögunum. Á þeim tíma sem kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta hafi verið í gildi XVIII. ákvæði til bráðabirgða með lögum um atvinnuleysistryggingar sem hafi mælt fyrir um að atvinnuleitandi gæti öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði. Bráðabirgðaákvæðið hafi verið sérstök tímabundin ráðstöfun til að tryggja atvinnuleitendum meiri rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta á meðan horfur á vinnumarkaði hafi verið lakar vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ákvæðið hafi verið framlengt á gildistíma þess en að endingu hafi því verið markaður gildistími til 31. janúar 2022.

Í XVIII. ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, hafi sagt:

„Þrátt fyrir 1. mgr. 32. gr. skal sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð enda hafi hann ekki fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta skv. 32. gr. fyrir 1. júní 2020. Hafi hinn tryggði ekki fullnýtt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði fyrir 1. október 2021 fellur niður ónýttur réttur viðkomandi til slíkra bóta samkvæmt ákvæði þessu.“

Á grundvelli þessa ákvæðis hafi atvinnuleitendur getað átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði í stað þriggja á meðan bráðabirgðaákvæðið varði. Þegar framangreint ákvæði hafi fallið úr gildi þann 31. janúar 2022 hafi kærandi fengið greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í rúma fjóra mánuði. Í kæru til úrskurðarnefndar geri kærandi kröfu um að fá tekjutengingu greidda í sex mánuði og vísi til þess að ákvæðið hafi verið í gildi þegar bótatímabil hennar hafi hafist. Telji kærandi jafnframt að ákvörðun stofnunarinnar feli í sér afturvirka skerðingu á réttindum hennar.

Þegar bráðabirgðaákvæði falli úr gildi sé stjórnvaldi ekki heimilt að byggja ákvarðanir sínar á grundvelli þess. Fari um slíkar lagaheimildir líkt og aðrar sem felldar hafi verið úr gildi með lögum. Í því ákvæði sem ágreiningur snúi að hafi einnig verið sérstaklega tilgreint hvernig fara skyldi um mál við það tímamark sem ákvæðið félli úr gildi. Í greininni sé beinlínis tekið fram að ef hinn tryggði hafi ekki fullnýtt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði fyrir 1. febrúar 2022 falli niður ónýttur réttur viðkomandi til slíkra bóta samkvæmt ákvæðinu. Vinnumálastofnun telji því að kærandi eigi ekki kröfu á frekari greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þann rétt sem XVIII. ákvæði til bráðabirgða með lögum um atvinnuleysistryggingar hafi heimilað. Þá verði ekki fallist á að með ákvæðinu hafi falist afturvirk skerðing á réttindum kæranda líkt og haldið sé fram í kæru til nefndarinnar, enda hafi við setningu lagaákvæðisins strax verið gerð grein fyrir lagaskilum við lok gildistíma þess. Að auki hafi bráðabirgðaákvæðið fært aukinn rétt til atvinnuleitenda en ekki skerðingu á réttindum þeirra. Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að frá og með 1. febrúar 2022 hafi kærandi fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt XVIII. ákvæði til bráðabirgða og 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og eigi því ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum frá þeim tíma.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta til kæranda frá 1. febrúar 2022.

Í 1. mgr. 32. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt III. eða IV. kafla öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur samkvæmt 33. gr. hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð, nema annað leiði af lögunum.

Í 1. mgr. XVIII. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006, sem var í gildi til og með 31. janúar 2022, kemur fram að þrátt fyrir 1. mgr. 32. gr. skuli sá sem teljist tryggður samkvæmt III. eða IV. kafla öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur samkvæmt 33. gr. hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð, enda hafi hann ekki fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt 32. gr. fyrir 1. júní 2020. Þá segir að hafi hinn tryggði ekki fullnýtt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði fyrir 1. febrúar 2022 falli niður ónýttur réttur viðkomandi til slíkra bóta samkvæmt ákvæðinu.

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga nr. 73/2021, um breytingu á lögum nr. 54/2006, segir um framangreint bráðabirgðaákvæði:

„Hér er lagt til að ónýttur réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði falli ekki niður fyrr en 1. febrúar 2022. Er þetta lagt til þar sem nauðsynlegt þykir að framlengja gildistíma úrræðisins þannig að þeir atvinnuleitendur sem fá tímabundin tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði á komandi mánuðum, áður en þeir hafa fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði, geti áfram átt möguleika á að nýta rétt sinn til slíkra bóta innan atvinnuleysistryggingakerfisins þurfi þeir að nýju að nýta rétt sinn innan kerfisins eftir að tímabundinni þátttöku á vinnumarkaði lýkur. Líkt og að framan greinir er þó ekki gert ráð fyrir að unnt verði að nýta rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði 1. febrúar 2022 eða síðar.“

Kærandi hefur vísað til þess að ákvæðið hafi verið í gildi þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur og því eigi hún rétt á tekjutendum atvinnuleysisbótum í sex mánuði þrátt fyrir að ákvæðið hafi fallið úr gildi 31. janúar 2022. Fyrir liggur að þegar framangreint ákvæði féll úr gildi hafði kærandi fengið greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í rúma fjóra mánuði. Eins og fram hefur komið var í XVIII. ákvæði til bráðabirgða mælt fyrir um framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði í stað þriggja en ákvæðið var í gildi til og með 31. janúar 2022. Ónýttur réttur til greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta féll niður við það tímamark. Að því virtu átti kærandi ekki rétt á greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta frá 1. febrúar 2022. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur tekjutengdra atvinnuleysisbóta til A,  frá 1. febrúar 2022, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum